UM OKKUR

FUGLAR FJARAN FRELSIÐ

Gistiheimilið Melar er fjölskyldurekið gistihús á Kópaskeri, litlu þorpi við Öxarfjörð norður við heimskautsbaug. Húsið, sem er eitt elsta íbúðarhús þorpsins, hefur verið gert upp frá grunni en það var upprunalega byggt árið 1930.

Boðið er upp á gistingu í lítilli íbúð á jarðhæð og í fjórum herbergjum á þriðju hæð hússins sem jafnframt er efsta hæð hússins. Við höfum skírt herbergin í höfuðið á uppáhalds fuglunum okkar; jaðrakan, rjúpa, lómur og kría. Allir fuglarnir eru sjáanlegir á svæðinu í kringum Kópasker yfir sumartímann. Herbergin fjögur á efstu hæð eru misstór. Á annarri hæð Mela, þar sem gengið er inn í gistiheimilið, er rúmgott sameiginlegt rými með fullbúnu eldhúsi, stofu og baðherbergi. Nánari lýsing á bókunarsíðunum. Litla íbúðin á jarðhæðinni er með fullbúnu eldhúsi og baðherbergi. Alls tekur húsið við 8-10 í gistingu (8 fullorðinir, 2 börn uppi á palli) og er tilvalið fyrir stærri sem og minni hópa. Möguleiki er á dýnum og barnarúmi. Á sjávarkambinum við gistiheimilið Mela eru heitir pottar, Bakkaböðin, en þar býðst gestum að fara í heita potta og sjóböð við óviðjafnanlegar aðstæður. Úr pottunum má ganga niður í fallega sandfjöru með þéttum svörtum sandi. Í fjörunni spígspora sandlóur og tjaldar. Þarna er kjörin aðstaða til að skella sér í sjóinn.
Þorpið Kópasker er í um klukkustundarakstur frá Húsavík, í um 37 km fjarlægð frá Ásbyrgi og Hljóðaklettum og um 60 km fjarlægð frá Dettifossi. Þorpið er hluti af Norðurstrandaleiðinni sem nýtur vaxandi athygli ferðamanna sem kjósa að ferðast og upplifa fáfarnari slóðir á norðurhluta Íslands. Svæðið er einstakt hvað varðar fjölbreytileika í fuglalífi og fuglaskoðunarhús er í þorpinu.

Í stuttum bíltúr frá Kópaskeri má keyra að heimskautsbaugnum, heimsækja Raufarhöfn með sitt Norðurheimskautsgerði og skoða fjörur og fuglabjörg á Melrakkasléttunni. Einnig má njóta norðurljósanna við bestu mögulegar aðstæður þegar þau skína í sveitunum í kringum Kópasker.

Nánari upplýsingar hjá Hildi Óladóttur í netföngunum hildurhola@gmail.com eða melar@melarguesthouse.is Ljósmyndir á heimasíðu Mela eru teknar af Hildi Óladóttur og Guðmundi Erni Benediktssyni