SAGA HÚSSINS

FUGLAR FJARAN FRELSIÐ

Húsið Melar var byggt árið 1930 af Kristjönu Þorsteinsdóttur, húsmóður og bókakaupmanni f. 25.11 1905, d. 7.10 1979 frá Litlu Reykjum í Reykjahverfi og manni hennar Jóni Árnasyni vélstjóra hjá kaupfélaginu f. 9.10 1902, d. 12.08 1962 en hann var alinn upp á Bakka á Kópaskeri, húsinu við hliðina á Melum. Kristjana og Jón giftu sig sama ár og þau fluttu í Mela og þar eignuðust þau börnin sín sjö, það fyrsta fæddist árið 1931 og sá yngsti fæddist árið 1946.

Árið 1936 keyptu þau Kristjana og Jón bókaverslun og ráku í húsinu allt til ársins 1978 og stóð Kristjana í bókaversluninni alla tíð eða í yfir 40 ár.

Í viðbyggingu á neðstu hæðinni var fjósið þar sem þau hjónin höfðu kýrnar en mjög algengt var að menn væru með sínar eigin kýr í þorpinu alveg framundir árið 1970.  Eldhúsið var á neðstu hæðinni við hlið fjóssins, það var stórt og rúmgott og bara ef veggirnir þar gætu talað !

Meðan Kristjana og Jón bjuggu í húsinu áttu þar heimili margir ættingjar, afkomendur og aðrir leigjendur í húsinu í skemmri og lengri tíma og fæddust nokkrir afkomendur þeirra í húsinu á árunum 1954 – 1964.  Frá því Kristjana lést árið 1979 hafa ótal margir þorpsbúar átt lengri eða skemmri búsetu í húsinu en síðustu árin gekk húsið í gegnum niðurlægingartímabil og var í mikilli niðurníðslu er Hildur keypti það árið 2016. Frá vordögum 2017 hefur verið unnið föstum skrefum að því að gera húsið upp í sem upprunanlegastri mynd að utan og virðingu við fyrstu eigendur hússins höfð sem leiðarljós. Húsið hefur nú gengið í gegnum algera endurnýjun að innan og er tilbúið til að taka á móti gestum á þann hátt sem gestgjafarnir hafa lagt upp með og endurspeglar hlýju og gleði.

Húsið stendur hnarreist á sjávarbakkanum með útsýni yfir höfnina, fjöruna og sjóinn. Það hefur á liðnum 90 árum mikið nætt um húsið sem hefur staðið af sér stórhríðar og norðaustan hryssing, sem óhjákvæmilega fylgir staðsetningunni. Fuglalífið, sólarlagið, litir náttúrunnar sem og hin undursamlegu löngu sumarkvöld norður við heimskautsbaug bæta fyrir allt það sem kuldalegt kann að virðast á stundum.

Bara að veggirnir gætu talað !